Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, segist hafa fengið straum af skilaboðum þar sem honum er þakkað fyrir að ræða réttindabaráttu hinsegin fólks opinskátt og af virðingu. Hann segist munu losa sig við framíköll sín fyrir þrítugt, sem hann segir bagalegan ósið.
Þetta segir Snorri í færslu á Facebook.
Snorri hefur víða verið gagnrýndur í kjölfar viðtals í Kastljósi þar sem hann átti í rökræðum við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastjóra hjá Samtökum 78, um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks.
„Mér eru gerð upp viðhorf og ummæli“
„Eftir umtalað sjónvarpsviðtal á mánudaginn eru að baki líklega undarlegustu nokkrir dagar á mínum stutta stjórnmálaferli. Vanstillt viðbrögð á netinu hafa sannarlega tekið út yfir allan þjófabálk.
Efnislega vekur helst athygli mína þar að jafnan er lagt út af einhverju sem ég hef aldrei sagt. Mér eru gerð upp viðhorf og ummæli. Sú staðreynd hefur þó ekki dregið úr stóryrðunum, sem sumum er beint að persónu minni og jafnvel fjölskyldu,“ segir í færslu Snorra.
„Þetta er þó aðeins það sem maður sér á yfirborði samfélagsmiðlanna. Á sama tíma fæ ég ekki svarað öllum þeim straumi skilaboða sem mér berast með þökkum fyrir að ræða þessi mál opinskátt og af virðingu.
Því fylgir oftar en ekki lína um að sendandinn þori sjálfur ekki að lýsa sinni skoðun opinberlega, né lýsa yfir stuðningi við mín sjónarmið.“
Tjáir sig ekki um eftirlitið
Hann segir viðbrögðin gera ekki annað en að staðfesta áhyggjur sínar sem komu fram í Kastljósþættinum af „afar víðsjárverðri þöggun“ sem hafi grafið um sig í samfélaginu.
„Einn hluta gagnrýninnar tek ég til mín og hún snýr að framíköllum mínum. Mér hefur áður verið bent á að láta kappið ekki bera fegurðina ofurliði. Þetta er bagalegur ósiður í sjónvarpssal, einn af þeim sem ég lofa hér með formlega að losa mig alfarið við fyrir þrítugt.“
Snorri tjáir sig ekki í færslunni um þær fregnir að lögreglan hafi verið með sérstakt eftirlit við heimili hans í nótt vegna hótana sem honum áttu að hafa borist vegna sjónvarpsviðtalsins.