Blekti um banvænt krabbamein og kallaði til lögreglu og sérsveit

Landsréttur hefur staðfest ákvörðun barnaverndar um að tvær ungar stúlkur skuli dvelja utan heimilis móður sinnar í allt að fjóra mánuði. Með því var snúið við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem áður hafði fellt úr gildi vistunarákvörðunina.

Málið vakti athygli eftir að í ljós kom að móðirin, sem er læknir að mennt, hafði haldið því fram að hún væri með krabbamein á lokastigi og væri í meðferð vegna þess. Samkvæmt dómsgögnum hafði hún jafnframt tekið inn svo mikið magn lyfja að hún varð ófær um gang.

Kallaði út sérsveit

Þegar eiginmaðurinn komst að því að veikindin voru uppspuni sótti hann tafarlaust um skilnað. Áður hafði móðirin ítrekað sakað hann um andlegt ofbeldi og jafnvel kallað til lögreglu og sérsveit með þeim rökum að hann héldi dætrunum í gíslingu.

Í kjölfarið var faðirinn handtekinn og móðirin leitaði með dæturnar í úrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis. Rannsókn barnaverndar leiddi hins vegar í ljós að ásakanir hennar stóðust ekki og voru faðirinn og börnin flutt saman í öruggt skjól. Mat barnaverndar var að móðirin glímdi við alvarleg geðræn vandamál eða persónuleikaröskun.

Ný gögn breyttu niðurstöðunni

Héraðsdómur taldi í fyrstu að þótt móðirin hefði logið um veikindi sín stafaði börnunum ekki bein hætta af henni. Í Landsrétti voru hins vegar lögð fram ný gögn, meðal annars bréf frá leikskólastjóra þar sem fram kom að eldri dóttirin sýndi jákvæðar breytingar eftir að móðirin fór af heimilinu.

Einnig bar sálfræðingur á Landspítala vitni um að móðirin væri ófær um að sinna börnunum.

Hótanir gegn föður og fjölskyldu

Samkvæmt gögnum málsins hafði faðirinn orðið fyrir hótunum frá mönnum sem tengdust móðurinni. Hann og stúlkurnar þurftu tímabundið að flytja í íbúð á vegum barnaverndar eftir að hótanir bárust honum og móður hans í smáskilaboðum. Tveir menn mættu jafnframt að heimili fjölskyldunnar.

Landsréttur taldi að öryggi og velferð barnanna krefðust þess að þau dveldu áfram utan heimilis móðurinnar.

Ritstjóri

I am the admin...

View all posts by Ritstjóri →